Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd útlendingamála

Nr. 31/2024 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 4. janúar 2024 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 31/2024

í stjórnsýslumáli nr. KNU23120047

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 12. desember 2023 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Filippseyja (hér eftir kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 7. desember 2023, um að synja henni um langtímavegabréfsáritun.

Af kæru má ráða að kærandi krefjist þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að fallist verði á beiðni hennar um langtímavegabréfsáritun.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017, ásamt síðari breytingum, og ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II.        Málsatvik og málsmeðferð

Hinn 14. júlí 2023 gáfu norsk stjórnvöld út vegabréfsáritun inn á Schengen-svæðið til handa kæranda. Áritunin heimilaði eina komu (e. single entry visa) inn á svæðið og heimild til 89 daga dvalar á tímabilinu 26. ágúst 2023 til 7. desember 2023. Samkvæmt stimpli í vegabréfi kæranda kom hún inn á Schengen-svæðið 26. ágúst 2023 í gegnum alþjóðaflugvöllinn í Amsterdam, Hollandi. Kærandi sótti um langtímavegabréfsáritun hjá Útlendingastofnun 17. nóvember 2023. Umsókn kæranda var synjað með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 7. desember 2023, en kærandi móttók ákvörðunina 11. desember 2023. Hinn 12. desember 2023 barst kærunefnd kæra frá kæranda. Með tölvubréfi, dags. 14. desember 2023, lagði kærandi fram frekari gögn vegna málsins.

Með kæru óskaði kærandi jafnframt eftir frestun réttaráhrifa á ákvörðun Útlendingastofnunar á meðan málið væri til meðferðar hjá kærunefnd, sbr. 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hinn 2. janúar 2024 féllst kærunefnd á beiðni um frestun réttaráhrifa.

III.    Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð rekur kærandi ástæður þess að hún óski eftir langtímavegabréfsáritun. Fram kemur að hún hafi fengið útgefna ferðamannaáritun og dvalist á Íslandi með systur sinni, sem er gift íslenskum ríkisborgara en kærandi á tvær systurdætur hér á landi. Hún hafi notið náttúrufegurðar, en ekki síst nýtt tímann til þess að sinna umönnun með systurdóttur sinni [...]. Kærandi kveður synjun á langtímavegabréfsáritun jafnframt vera synjun á þjónustu og athygli til handa systurdóttur sinni sem hefði neikvæð áhrif á fjölskylduna í heild. Nærvera kæranda sé nauðsynleg vegna þroska og þróunar hennar. Kærandi vísar til mannúðarsjónarmiða svo hún geti varið meiri tíma í að aðstoða systurdóttur sína.

Meðal fylgigagna sem lögð voru fram á kærustigi eru læknisvottorð [...], dags. [...], og [...], dags. [...], útgefin af [...]. Hvort tveggja er gefið út til handa systurdóttur kæranda.

IV.    Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í 1. mgr. 21. gr. laga um útlendinga segir að langtímavegabréfsáritun megi veita þegar umsækjandi óskar eftir dvöl umfram 90 daga en tilgangur dvalar sé ekki af ástæðu sem tilgreind sé almennt í dvalarleyfisflokkum og ekki sé ætlun umsækjanda að setjast að á landinu. Vegabréfsáritun samkvæmt ákvæðinu verði ekki veitt til lengri tíma en 180 daga. Þá er nánar fjallað um skilyrði fyrir veitingu langtímavegabréfsáritunar í II. kafla reglugerðar um útlendinga.

Í athugasemdum í frumvarpi því er varð að lögum um útlendinga kemur fram að veita megi langtímavegabréfsáritun að því gefnu að tilgangur dvalar falli ekki undir aðra dvalarleyfisflokka og fullvíst sé að umsækjandinn ætli sér ekki að setjast að á landinu. Ekki er heimilt að endurnýja langtímavegabréfsáritun þannig að gildistími hennar verði lengri en 180 dagar nema í þeim tilvikum þar sem heimilt er að gefa út áritun til lengri tíma. Miðað er við að um sé að ræða samfellda dvöl í allt að 180 daga en eftir það tímamark er almennt skylt að skrá lögheimili á Íslandi og þá myndast jafnframt skattskylda hér á landi.

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. reglugerðar um útlendinga má veita útlendingi langtímavegabréfsáritun að fenginni umsókn og að uppfylltum skilyrðum laga og öðrum skilyrðum reglugerðarinnar. Í 2. mgr. segir að langtímavegabréfsáritun feli í sér heimild til dvalar hér á landi í allt að 90 daga og útlendingur sem sækir um slíka áritun skuli vera staddur hér á landi nema annað sé tekið fram í reglugerð þessari. Dvöl útlendings þegar sótt er um slíka áritun skuli vera í samræmi við 49. gr. laga um útlendinga nema annað sé tekið fram. Langtímavegabréfsáritun sé einungis heimilt að gefa út einu sinni á hverju 12 mánaða tímabili.

Í 5. gr. reglugerðarinnar er fjallað um grundvöll langtímavegabréfsáritunar og eru í a-c liðum 2. mgr. nefnd í dæmaskyni tilvik sem geta verið grundvöllur slíkrar áritunar. Í a-lið 2. mgr. ákvæðisins kemur fram að heimilt sé að gefa út langtímavegabréfsáritun til aðstandenda, sbr. 1. mgr. 69. gr. laga um útlendinga, sem hyggjast koma í lengri heimsóknir hingað til lands. Heimilt sé að víkja frá aldursskilyrði foreldra umsækjanda við útgáfu langtímavegabréfsáritunar. Í b-lið 2. mgr. ákvæðisins er fjallað um vitni eða aðila að dómsmáli, og fjallar c-liðurinn um útlendinga sem koma hingað í öðrum lögmætum tilgangi, svo sem listamenn, vísindamenn eða íþróttamenn, enda kalli dvöl þeirra ekki á útgáfu dvalar- og/eða atvinnuleyfis. Loks mælir 7. gr. reglugerðar um útlendinga fyrir um ástæður þess að umsókn um langtímavegabréfsáritun skuli synjað. Í d-lið 1. mgr. ákvæðisins kemur m.a. fram að umsókn skuli synjað ef dvöl samræmist ekki tilgangi dvalar á grundvelli langtímavegabréfsáritunar.

Fyrir liggur að kærandi lagði fram umsókn um langtímavegabréfsáritun til að verja meiri tíma með systur sinni og fjölskyldu hennar hér á landi en einkum til þess að annast systurdóttur sína sem glími [...] og eru lögð fram læknisvottorð því til stuðnings. Útlendingastofnun synjaði umsókn kæranda á þeim grundvelli að kærandi væri ekki aðstandandi í skilningi 1. mgr. 69. gr. laga um útlendinga, sbr. a-lið 2. mgr. 5. gr. reglugerðar um útlendinga og þá væri áætluð framhaldsdvöl hennar ekki vegna verkefna sem krefjast dvalar umfram 90 daga, sbr. b- og c-lið 2. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar.

Kærunefnd hefur yfirfarið röksemdir kæranda og fylgigögn málsins. Samkvæmt fylgigögnum málsins er ljóst að systurdóttir kæranda glímir [...] sem háir henni í daglegum athöfnum og hefur hún þörf fyrir aðstoð til skemmri og lengri tíma. Samkvæmt [...] er hún í áframhaldandi eftirliti hjá [...], en kærandi lagði fram læknisvottorð, dags. [...]. Samkvæmt skýrslunni þarf hún einnig á sérstakri þjónustu að halda í skólaaðstæðum. Í 3. málslið 1. mgr. 69. gr. laga um útlendinga er fjallað um hverjir teljast til nánustu aðstandenda, nánar tiltekið maki, sambúðarmaki, börn viðkomandi yngri en 18 ára í forsjá hans og á framfæri og foreldrar 67 ára og eldri. Ljóst er að kærandi fellur ekki undir hugtakið aðstandandi í skilningi 1. mgr. 69. gr. laga um útlendinga, og mun dvöl hennar því ekki grundvallst á a-lið 2. mgr. 5. gr. reglugerðar um vegabréfsáritanir. Ekkert í gögnum málsins bendir til þess að kærandi þurfi að dveljast hér á landi vegna reksturs dómsmál, sbr. b-lið ákvæðisins.

Þá tekur kærunefnd undir það mat Útlendingastofnunar að c-liður 2. mgr. 5. gr. reglugerðar um útlendinga vísi til verkefna lista-, vísinda-, eða íþróttamanna sem áætlað er að taki lengri tíma en 90 daga en ljúka megi innan 180 daga, enda verður dvöl á grundvelli langtímavegabréfsáritunar ekki lengri en 180 dagar, sbr. lokamálslið 1. mgr. 21. gr. laga um útlendinga. Ekki verður annað lagt til grundvallar en að systurdóttir kæranda njóti réttar til heilbrigðisþjónustu hér á landi, sbr. m.a. lög nr. 40/2007 um heilbrigðisþjónustu og lög nr. 112/2018 um sjúkratryggingar. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hefur hún þörf fyrir sérstaka þjónustu til lengri tíma og er það mat kærunefndar að umbeðin dvöl kæranda sé ekki með þeim hætti að um sé að ræða tímabundinn tilgang, sem taki lengri tíma en 90 daga, en skemmri tíma en 180 daga. Með vísan til framangreinds er það mat kærunefndar að fyrirhuguð dvöl kæranda samræmist ekki tilgangi dvalar á grundvelli langtímavegabréfsáritunar.

Að öllu framangreindu virtu verður staðfest ákvörðun Útlendingastofnunar um synjun á langtímavegabréfsáritun.

Hinn 15. desember 2022 voru samþykkt lög um landamæri nr. 136/2022 á Alþingi þar sem m.a. voru gerðar breytingar á 98. gr. laga um útlendinga. Var a-liður 1. mgr. 98. gr. felldur brott og orðalagi 2. mgr. ákvæðisins breytt á þann veg að svo framarlega sem 102. gr. laga um útlendinga eigi ekki við skuli vísa útlendingi úr landi sem dveljist ólöglega í landinu eða þegar tekin hafi verið ákvörðun sem bindi enda á heimild útlendings til dvalar í landinu. Í frumvarpi því er síðar varð að lögum um landamæri kemur fram að lagt sé til í 2. tölul. e-liðar 25. gr. laga um landamæri að 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga verði breytt þannig að lögin verði í samræmi við brottvísunartilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2008/115/EB og kveði skýrt á um að stjórnvöld skuli vísa brott útlendingum sem dveljist hér á landi án heimildar. Þannig skuli útlendingum sem dveljast hér á landi án heimildar vísað brott og í kjölfarið veittur frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugir.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var kæranda synjað um framlengingu vegabréfsáritunar. Samkvæmt því sem þegar hefur verið rakið kom kærandi inn á Schengen-svæðið hinn 26. ágúst 2023 og lauk dvalarheimild hennar, samkvæmt hinni útgefnu vegabréfsáritun, því 22. nóvember 2023 en í hinni kærðu ákvörðun var tekið fram að kærandi væri stödd á landinu. Afleiðingar ákvörðunar Útlendingastofnunar eru þær að kærandi dvelst á Íslandi án gildrar vegabréfsáritunar eða annarrar dvalarheimildar. Í ákvörðun Útlendingastofnunar er athygli kæranda vakin á því að ólögmæt dvöl geti leitt til brottvísunar og endurkomubanns til Íslands og Schengen-svæðisins, tímabundið eða að fullu og öllu, sbr. 98. og 101. gr. laga um útlendinga. Hefði stofnunin með réttu átt að taka ákvörðun um brottvísun og endurkomubann kæranda í samræmi við áðurnefndar lagabreytingar nr. 136/2022. Með bréfi kærunefndar, dags. 2. janúar 2024, var kæranda tilkynnt að réttaráhrifum ákvörðunar Útlendingastofnunar væri frestað á meðan mál hennar væri til meðferðar á kærustigi sem lýkur við uppkvaðningu úrskurðar þessa. Er kæranda því veittur 15 daga frestur, sbr. 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga, til þess að yfirgefa landið sjálfviljug. Að öðrum kosti skal Útlendingastofnun taka ákvörðun um brottvísun hennar frá landinu og ákveða henni endurkomubann til Íslands og Schengen-svæðisins.

 

Úrskurðarorð:

 

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

 

The decision of the Directorate of Immigration in the appellant’s case is affirmed.

 

Fyrir hönd kærunefndar útlendingamála,

 

Valgerður María Sigurðardóttir, varaformaður



Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum